154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[12:17]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við ræðum þetta því að þessu er oft slegið fram. En við verðum eiginlega að fara aðeins á dýptina með þetta. Hvað á fólk við? Við erum í öfugum orkuskiptum núna. Það sem var rafvætt, var með græna íslenska orku — nú er farið að nota jarðefnaeldsneyti. Allt það sem kemur inn núna, öll græna orkan sem kemur inn á markaðinn, verður nýtt í orkuskiptin. Síðan erum við að fara, til að ná kolefnishlutleysi og ná orkuskiptunum, í græna orku sem er ekki eins og við þekkjum fram til þessa. Jú, við notum græna orku til að búa til aðra græna orku. Það mun þurfa á skipin okkar. Nú er Samskip t.d. að smíða fjögur stór skip sem knúin verða áfram af rafeldsneyti og við vitum ekki hvenær sú tækni verður tilbúin fyrir flugið. En í ofanálag viljum við ekki sjá, þegar atvinnustarfsemi hefst, að hún sé keyrð áfram með jarðefnaeldsneyti.